17.03.2010 11:04

Jóar þandir á spegilfögum ísnum


Margir hafa efalaust haldið það óðs manns æði að ríða Svínavatn á ís nú á miðri Góu, þegar búin var að vera langvarandi hláka. En ráðsettir bændur við vatnið töldu þetta í góðu lagi, ísinn væri um eða yfir hálfan meter á þykkt á þessum árstíma þrátt fyrir hlýindin og engin hætta á að hann brysti þótt hópur manna leggði jóa sína um vatnið þvert.

Það var á þriðja tug karla, sem safnaðist saman í Bótinni norðanvert við vatnið. Láskýjað var en logn og indælis veður.  Eftir liðskönnun var haldið út á vatnið undir öruggri leiðsögn Gísla á Mosfelli og Ægis í Stekkjardal. Ísinn var sléttur og reiðfæri eins og það best getur orðið. Hvorki var vatn né snjór á ísnum og gleði í mönnum og hestum.


Trúlega eru fá vötn í byggð með jafn öruggan ís, enda liggur vatnið nokkuð hátt og er mjög djúpt. Langoftast er ísinn líka sléttur, enda veðursæld í Svínadal. Þar hafa verið haldin fjölsótt mót undanfarna vetur, ætíð í góðu veðri að undanskildu mótinu sem haldið var í vetur. 

Meginþorri þátttakenda í þessari karlareið var úr Húnaþingi, en svo voru dæmi um að menn kæmu með hesta langan veg til að taka þátt í þessari upplifun og urðu eigi fyrir vonbrigðum. Vitað var um allmarga, sem ætluðu að koma með, en afleit veðurspá aftraði þeim þar sem spáð var miklu úrfelli hér norðanlands þennan dag. En sú spá rættist ekki og í ferðinni höfðu sumir á orðið að það væri alveg frábært fyrir ferðaþjónustuaðila í héraði að bjóða upp á reglulega reiðtúra um vatnið. Ferðinni lauk við Dalsmynni sunnan við vatnið eftir að riðnir höfðu verið hátt í tugur kílómetra. Þaðan var hestum ekið til Blönduóss og menn söfnuðust saman í Reiðhöllinni Arnargerði þar sem grillað var og gleði fram eftir kvöldi.

Magnús Ólafsson

Flettingar í dag: 636
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 924
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 426238
Samtals gestir: 50895
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 11:13:43

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere