08.05.2013 22:00

Afmælissýning tókst vel


Hestamannafélagið Neisti var stofnað 1943 í Dalsmynni. Stofnendur voru 40 talsins, allt karlmenn. Guðbrandur Ísberg var formaður í 29 ár en núverandi formaður er Hjörtur Karl Einarsson.

Í vetur var ákveðið að fagna afmælinu og halda a
fmælissýningu sem haldin var sl. sunnudag, 5. maí eftir að hafa verið frestað um viku vegna veðurs. Sýning tókst með eindæmum vel en
veðurspáin var ekkert spennandi fyrir þennan dag, rok og slydduspá en veðurguðinn var okkur ótrúlega hliðhollur og var frábært veður framan af degi en um leið og sýningin var búin, rauk hann upp með norðaustan roki og rigninu. Vægast sagt ömurlegu veðri.

Í vetur voru 40 börn og 10 fullorðnir á námskeiðum hjá félaginu. Langflest börnin tóku þátt í sýningunni en einnig komu nokkrir unglingar sem eru burtu í framhaldsskóla  og æfðu nokkrar helgar, sem og krakkar sem ekki eru á námskeiðum. Í heildina tóku því nærri 50 börn þátt í sýningunni.
Sonja Noack sá um alla kennslu í vetur og var yngsti nemandinn 2ja ára og sá elsti 67 ára. Sá yngsti og sá elsti heita báðir Magnús Ólafsson og eru kenndir við Sveinsstaði
. Þeir voru auðvitað báðir mættir á sýninguna og voru glæsilegir.



Þennan texta fegnum við frá Magnúsi eldri:

"Magnús Ólafsson eldri er nú 67 ára og er sá elsti, sem tekur þátt í reiðnámskeiði á vegum Neista í vetur. Hann byrjaði fyrir 4 árum að taka þátt í knapamerkjanámskeiðum og stefnir á að taka próf  4 stigs í vor. Ástæðan fyrir að Magnús byrjaði var áskorun Helgu á Þingeyrum sem taldi að hann gæti skánað til muna sem reiðmaður og staðreyndin er sú að árið áður en hann byrjaði í knapamerkjanáminu þá 63 ára gamall,  tók Magnús þátt í sínu fyrsta móti í hestaíþróttum. Þá var hann í einu af neðstu sætunum, en hefur síðan verið að smá bæta sig og í vetur vann hann stigakeppnina í áhugamannaflokk Neista.

Trúlega mun nú þurfa að teyma eitthvað lengur undir Magnúsi yngri en hver veit nema hann verði bráðum farinn að hjálpa afa. Allavega virðist áhuginn vera mikill enn sem komið er og ekki er ótrúlegt að þeir eigi oft eftir að fara saman á hestbak meðan heilsa endist hjá þeim gamla.

Að lokum þetta sem sá eldri skrifaði á blað við skírn þess yngri.

Áfram lífið ávallt gengur
yl í hjarta finn
Þegar lítill ljúfur drengur
lítur afa sinn."


Dagskráin, sem hófst með fánareið 7 kvenna, var fjölbreytt og reynt var að hafa atriðin þannig að allir krakkarnir sem voru á námskeiðum í vetur gætu tekið þátt.

Þau minnstu voru að sjálfsögðu með sitt eigið strumpaatriði og foreldrar teymdu undir. Yfirstrumpur var Sonja en Sigurlaug Markúsdóttir sá um búninga.



Trðúðarnir komu á eftir og fóru í þrautabraut, fóru létt með það og sýndu vel hvað þau eru flinkir knapar. Yfirtrúður var Sonja.




Klárhestar mættu á svæðið, Hestalistinn og Borðareið. Leikþátturinn Pétur Pan, Kúrekar og Indíánar háðu keppni þar sem indíánar unnu og fengu smá glaðning í verðlaun. Riddarar Merlins voru með mynsturreið og voru í þessum flottu skykkjum sem Sigurlaug hannaði og saumaði. Heimasæturnar á Hofi mættu með Hofsdansinn og framhaldsskólakrakkarnir 3, sem hafa verið í mörg ár á námskeiðum hjá Neista bjuggu til sitt atriði ásamt 3 krökkum úr 10. bekk. 





Landsmótsfararnir í barna- og unglingaflokki mættu í verðlaunaafhendingu og voru flott að vanda. Ásdís mætti á Prímus, Sigurður Bjarni á Prinsessu og Haukur á Viðari. Flott.


Nemendur í knapamerki 4 komu og sýndu okkur hvað þau eru að læra og Sonja útskýrði það vel fyrir áhorfendum. Gaman að sjá og heyra.




Jóhanna Stella og Grímur á Reykjum voru með afkvæmasýningu á börnum sínum og á heimaræktuðum hrossum sem systkinin hafa tamið og/eða þjálfað að mestu leyti sjálf. Jóhanna og Grímur hafa keyrt krökkunum sínum niður á Blönduós á námskeið í Reiðhöllinni síðan 2002, eða 12 ár, en fyrstu námskeiðin voru haldin þann vetur og var þá strax mikil þátttaka.
Jóhanna segir í texta sem fylgdi atriðinu:

"Krakkarnir hafa verið með á námskeiðum frá því fyrsta námskeiðið var haldið hér veturinn 2002, en þá mætti Stefán Logi hingað og systkinin fylgdu með. Þegar frá leið fóru þau líka inn á völlinn. Þau eru því heimavön hér og lærði Ásdís Freyja ekki bara á hest hér heldur líka að ganga.
Fjölskyldan er sem sagt búin að keyra hingað niður á Blönduós samfleytt í 12 vetur til að sækja námskeið og keppa á mótum og á líklega eftir nokkra í viðbót.
Lopapeysurnar eru auðvitað einnig frá Reykjum, prjónaðar af húsmóðurinni, en ekkert annað kom til greina hjá afkvæmahópnum."


Auk þess að vera með börnin sín vikulega á námskeiðum í vetur og vera með þau í mörgum atriðum á sýningunni  þá tók Jóhanna að sér að búa til atriði og æfa þau fyrir þessa sýningu, sauma búninga og  hjálpa við að skipuleggja dagskrána. Margar, margar aukaferðir. Kærar þakkir fyrir.



Leikskólinn á Þingeyrum var með flott atriði en þar kom Sonja Noack, kennarinn okkar í vetur, á henni Önn frá Þingeyrum og teymdi þau tvíburasystkin Tuma Þumal og Þumallínu sem eru á 4. vetri. Þau eru lítil og krúttleg. Í lok atriðisins var Sonja kölluð fram og nafnarnir Magnús Ólafsson eldri og Magnús Ólafsson yngri veittu henni þakklætisvott frá öllum nemendunum sem voru á námskeiðum hjá henni í vetur. Hún kenndi allt frá byrjendum upp í knapamerki 4 en þar voru 5 nemendur. Það þarf mikið skipulag og mikla vinnu til að kenna og halda utan um svo marga nemendur á öllum aldri. Frábær kennari og takk fyrir veturinn.





Hestamannafélagið átti íþróttamann ársins 2012, auðvitað engan annan en Ólaf Magnússon og átti hann lokaatriðið á sýningunni. Hann kom að sjálfsögðu á eðalgæðingnum Gáska frá Sveinsstöðum. Ofboðslega flott par og gaman á þá að horfa.




Eftir sýninguna var mikil kaffi- og kökuveisla og nægur tími fyrir spjall.




Neistafélgar eru afar glaðir með daginn, það kom margt fólk að horfa á og njóta dagsins. Margir þátttakendur, á ýmsum aldri, tóku þátt og allir höfðu gaman af. Augljóslega mikið og gott starf sem unnið er í hestamannafélaginu og má það vera stolt af því hvað Neisti á marga glæsilega og flotta knapa og hesta.

Þeir sem að sýningunni stóðu þakka öllum kærlega fyrir, öllum sem tóku þátt, öllum sem komu, öllum sem hjálpuðu til og gerðu þennan dag mögulegan og skemmtilegan.

Hjálmar Ólafsson tók myndir og koma þær fljótlega inn í myndaalbúm.
Sveinn í Plúsfilm tók sýninguna upp á myndband og verður það til sölu þegar það verður tilbúið.




 

Flettingar í dag: 506
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 709
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 409733
Samtals gestir: 49742
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 11:52:13

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere