05.03.2020 18:36

Vantar fleiri hendur í framkvæmdir

Kæru Neistafélagar

Framkvæmdir eru nú í gangi í reiðhöllinni og er salurinn að taka stökkbreytingu til betri vegar. Búið er að mála og parketleggja en þar er næst á dagskrá er að setja upp eldhúsinnréttingu. Það verður mikil breyting á salnum þegar verkinu er lokið og vonandi verður hægt að fagna 20 ára afmæli reiðhallarinnar þar með pompi og prakt í næstu viku.

Eins og áður segir hófust framkvæmdir í höllinni um síðustu helgi og mættu nokkrir félagsmenn Neista ásamt stjórnarmönnum til að láta verkin tala. Stjórn Neista er gífurlega þakklát fyrir þá aðstoð sem fengist hefur í framkvæmdirnar en á sama tíma óskum við eftir fleiri félögum til að leggja sitt að mörkum. Eins og staðan er núna þá hafa nokkir félagsmenn lagt mjög mikið á sig í þágu félagsins en við teljum að hægt sé að virkja fleiri félagsmenn í verkefnið. Mikið líf er í hestamannafélaginu um þessar mundir eins og mátti sjá á Grímutöltinu í SAH mótaröðinni um liðna helgi. Þátttakan var frábær og margt um manninn í reiðhöllinni. Endurbætur reiðhallarinnar eru ekki síst í þágu þeirra virku félagsmanna sem sækja viðburði Neista s.s. mót og námskeið og annara sem nýta reiðhöllina í sinni hestamennsku. Því er spurning hvort það séu ekki fleiri félagasmenn tilbúnir að gefa Neista og reiðhöllinni aðeins af tíma sínum og njóta samveru á sama tíma? 

Stjórn Neista vill hvetja félagsmenn til að hafa samband og bjóða fram krafta sína. Unnið verður í reiðhöllinni næstu daga, í ýmsum verkefnum og á ýmsum tímum svo að flestir ættu að geta lagt verkefninu lið með einum eða öðru hætti. 

Sem dæmi um verkefni sem þarf að vinna þá vantar aðstoð við;

Þrif á húsgögnum, sessum, áhorfendapöllum, veggjum, hurðum og fleira.
Málningu á anddyri, salernum, gluggum, hurðum og fl.
Smíði á skáp/kompu í anddyri undir sessur
Söfnun styrkja - fjáröflun
Skipulagningu afmælisfagnaðar
Bakstur fyrir afmælisfagnað
Flísalögn
Endurbætur á salernum, uppsetning nýrra tækja og fleira.

Einnig vantar enn húsgögn í salinn okkar og félagsmenn mega gjarnan vera vakandi fyrir hentugum húsmunum. Það sem vantar er;

Sófi
Sófaborð
Bókahillur - lágar
Lokaðar hirslur / skápar
Ísskápur
Eldhúsmunir
Ryksuga

Tökum höndum saman! 

Með kveðju,

Stjórn Hestamannafélagins Neista


01.03.2020 22:00

Vinnuhelgi í reiðhöllinni

Framkvæmdir eru komnar á skrið í reiðhöllinni en eins og við vitum þá fögnum við 20 ára afmæli hennar í næstu viku. Það voru vaskir Neistafélagar sem mættu með hendur fram úr ermum og hófu framkvæmdirnar. Búið er að rífa út innréttingar og henda ónýtum húsbúnaði. Salurinn hefur nú verið málaður að mestu leyti og er málningarvinna á salernum í gangi. Frekari málningarvinna er á döfinni þar sem einnig á að mála anddyri reiðhallarinnar. 

Stjórn Neista vill þakka sérstaklega fyrir alla þá aðstoð sem fékkst um helgina en jafnframt benda á að enn er mikið verk fyrir höndum. Það er hægt að finna verkefni fyrir alla, bæði lengri, styttri, þyngri eða léttari. Margar hendur vinna létt verk! 


19.02.2020 08:38

Líf og fjör hjá Neista

Vetrarstarf Neista hefur farið vel af stað og eru meðal annars fjölmörg börn á námskeiðum á vegum félagsins. Bæði eru kennd knapamerki 1 og 2 ásamt almennum reiðnámskeiðum og keppnisnámskeiði. Síðast en ekki síst þá hafa yngstu börnin fjölmennt í reiðhöllina en alls eru þrjú pollanámskeið í gangi. Reiðkennari Neista í vetur er Jónína Lilja Pálmadóttir en keppnisnámskeiðið er í höndum Bergrúnar Ingólfsdóttur.


Það var líf og fjör á pollanámskeiði í reiðhöllinni síðasta sunnudag eins og þessar myndir bera með sér. 
15.02.2020 22:58

Tökum höndum saman - Endurbætur á reiðhöll og sal í tilefni að 20 ára afmæli reiðhallarinnarÞað styttist í 20 ára afmæli reiðhallarinnar í Arnargerði en hún var formlega tekin í notkun þann 11. mars árið 2000. Að því tilefni stendur til að bjóða félagsmönnum að koma saman og eiga saman góða stund á afmælinu. Þann dag standa einnig vonir til að hægt verði að taka formlega í notkun endurbættan sal reiðhallarinnar.

Stórsýning Austur Húnvetnskra hestamanna verður einnig haldin með pompi og prakt þann 22. apríl og standa vonir til að reiðhöllin verði þá búin að fá nauðsynlegt viðhald og endurbætur. Það hefði lítið farið fyrir félagsstarfi hestamannafélagsins Neista undanfarin ár ef reiðhallarinnar nyti ekki við og því er mjög mikilvægt fyrir hestamennsku á svæðinu, að stuðla að endingu hennar.

Stjórn Neista vinnur nú að skipulagningu þessa verkefnis og óskum við eftir aðstoð frá okkar félagsmönnum, sem og öðrum, sem eru tilbúin að aðstoða við að koma reiðhöllinni í betra horf. Það er mikið verk fyrir höndum og verður fyrsta vinnuhelgi í reiðhöllinni 29. febrúar - 1. mars.

Félagsmenn eru beðnir að hafa samband við stjórnarmeðlimi til að bjóða fram krafta sína. Það verður séð til þess að vinnuhelgin verði ekki síður skemmtileg en gagnleg!

Þar sem hestamannafélagið hefur lítið fjármagn þá leitum við eftir styrkjum til að fjármagna verkefnið. Ef félagsmenn hafa hugmyndir að því hvert sé hægt að sækja styrki, eða geta aðstoðað við að afla styrkja, þá má gjarnan hafa samband við stjórn Neista.

Einnig vantar umtalsvert af húsgögnum og húsbúnaði í salinn okkar. Ef einhverjir eru að skipta út og mega sjá af slíku (eða láta fyrir lítið) þá þiggur Neisti það með þökkum. Það sem helst vantar er:

·        Sófi

·        Sófaborð

·        Sjónvarp

·        Hitablásari

·        Borð og stólar

·        Bókahillur

·        Lokaðir skápar/hirslur

·        Skóhillur

·        Fatahengi

·        Ísskápur

·        Uppþvottavél

·        Vegghillur

·        Ýmis eldhúsbúnaður s.s. eldhúsföt, kökudiskar, vatnskönnur, kökuspaðar og fl.

·        Ryksuga

·        Skúringa- og hreingerningabúnaður

·        Handlaugar

·        Salerni

·        Speglar

 

Tökum höndum saman og færum reiðhöllina í betra horf og njótum samveru á sama tíma!

Með kveðju,

Stjórn Neista

  • 1
Flettingar í dag: 133
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 2383821
Samtals gestir: 360535
Tölur uppfærðar: 8.4.2020 12:57:06

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Harpa Birgisdóttir, formaður, Magnús Sigurjónsson, Kristján Þorbjörnsson, Sonja Suska, Berglind Bjarnadóttir. - - - Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere