22.05.2008 22:50

Landsmót hestamanna 2008

  

 Til hestamannafélaga á Íslandi vegna Landsmóts hestamanna 2008

Ágæti formaður / stjórn.


Bréf þetta ásamt meðfylgjandi upplýsingariti er sent til allra hestamannafélaga landsins vegna
Landsmóts hestamanna sem fram fer dagana 30. júní til 6. júlí á Gaddstaðaflötum við Hellu. Tilgangurinn er að veita helstu upplýsingar um skipulag, keppni, og fleira er við kemur mótinu svo að undirbúningur og samskipti vegna hestamannafélaga geti gengið eins vel og kostur er. Forráðamönnum hestamannafélaga er eindregið bent á að fylgjast með heimasíðunni www.landsmot.is til frekari upplýsingaöflunar. 

 

Sérstaklega er bent á hnappinn knapar/ræktunarbú undir slóðinni:

http://www.landsmot.is/index.php?pid=326

 Undir þeirri slóð er að finna allar helstu upplýsingar er lúta að keppnishaldi, s.s. um athafnasvæði og beitarhólf knapa, val hrossa og keppenda á Landsmót og síðast en ekki síst skráning keppenda og hrossa frá hestamannafélögunum í Sportfeng(var Mótafengur) undir slóðinni: www.sportfengur.com

 Eins og fram kemur á heimasíðu Landsmóts biðjum við ykkur vinsamlegast um að senda okkur póst yfir skráningarnar á netfangið:  [email protected] eftir að skráð hefur verið í Sportfenginn.

 Mikið og gott starf hefur verið unnið og er í vinnslu af hálfu rekstraraðila svæðisins, Rangárbakka ehf. sem og félagsins sem hefur umsjón með byggingu Rangárhallarinnar. Afar gott samstarf er á milli LM 2008 og beggja þessara félaga. Mótsvæðið er að verða hið glæsilegasta og mun mótstjórn Landsmóts einnig leggja sitt af mörkum til að mótið verði sem veglegast og hestamennskunni í landinu til sóma.

Mótstjórn LM 2008 hefur verið starfandi frá hausti 2007. Að venju er dagskráin fjölbreytt og með nokkuð hefðbundnu sniði. Mótstjórn afgreiddi dagskrá keppnishluta þegar á haustdögum (með fyrirvara um breytingar) og er hana jafnframt að finna á heimasíðu Landsmóts sem og viðauki við gögn þessi.

 Landsmót ehf. og LH gerðu leigusamning um svæðið fyrir um ári síðan og nýverið undirritaði framkvæmdastjóri LM 2008 leigusamning vegna notkunar á reiðhöllinni sem er í heild um 2.500 fm.  Ætlunin er að í reiðhöllinni verði blönduð starfsemi; m.a. verslanir, veitingasala, netkaffi og síðast en ekki síst Hestatorgið sem mun standa að fræðslu og kynningu íslenska hestsins á mótinu.  Á planinu beggja vegna brekknanna verða markaðstjöld og stórt skemmti- og veitingatjald.  Skemmtanahald og dansleikir standa einungis til 01:00 á kvöldin og er það liður í að mótstórn LM 2008 er að leggja ríkulega áherslu á Landsmót sem fjölskylduhátíð.  Mótsvæðið verður girt af og rýmt að nóttu til og hreinsað.

 Ætlunin er að hafa veglegt barnaleiksvæði með gæslu þar sem börnunum verður boðið upp á fjölbreytta leiki, karókíkeppnir, skemmtiatriði og afþreyingu og fl.  Ráðgert er að hafa þar húsdýr og gefa börnunum m.a. kost á að teymt sé undir þeim.  Vonum við að þessari nýjung verði vel tekið af þeim fjölda barna sem sækja mótið.

 Lagt verður mikið upp úr því að vera með skýra upplýsingamiðlun til áhorfenda m.a. með risaskjái við báða velli. Gefið verður út dagblað mótsins á íslensku og ensku á hverjum degi með helstu niðurstöðum og því sem hæst ber hverju sinni.  Þess má einnig geta að í boði eru hjólhýsa-/vagnastæði fyrir 500 bíla og fellihýsi með aðgengi að rafmagni.  Mjög margir hafa verið að nýta sér þessa þjónustu í gegnum netmiðasöluna en þar er einnig hægt að versla og panta sérstök stúkusæti.  Með samvinnu LM 2008 og Icelandair með miðasölu á netinu er vonast til að komið verði í veg fyrir þá miklu örtröð sem myndast hefur við inngangshlið.  Þess ber einnig að geta að Síminn hefur gert samstarfssamning við LM 2008 og áætlar að leggja ljósleiðara inn á svæðið. Þar með eru tæknimálin mun betur tryggð enda skipta þau gríðarlega miklu máli þegar verið er að vinna með allar tölur, einkunnir osfrv.

 Fljótlega verður veggspjöldum dreift til hestamannafélaganna í pósti og eru fulltrúar vinsamlegast beðnir um að koma því við að þau verði hengd upp við fjölfarna staði í þeirra heimabyggð sem og í hesthúsahverfum.

 Það er von undirritaðrar að góð stemning sé fyrir þátttöku félaga ykkar á mótinu og að hestamenn fjölmenni á 18. Landsmót hestamanna á Hellu í sumar.  Þess má geta að áætlað er að halda knapafund sunnudaginn 29. júní og verður það fyrirkomulag kynnt nánar. 

Með vinsemd og virðingu,

Jóna Fanney Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri

Flettingar í dag: 491
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 709
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 409718
Samtals gestir: 49742
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 11:30:50

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere