05.07.2009 22:51

Afburða árangur Húnvetninga á Fjórðungsmóti á Kaldármelum.

Jóna Fanney Friðriksdóttir skrifar:

Á Fjórðungsmóti hestamanna sem haldið var á Kaldármelum á Snæfellsnesi dagana 1.-5. júlí komu fram um 350 hross úr 16 hestamannafélögum. Hátt í 3.000 manns sóttu mótið, þótti það afar vel heppnað og fór fram í blíðskaparveðri. 

Húnvetnsk hross og knapar stóðu sig afar vel á Fjórðungsmótinu.

Fjöldi efnilegra barna,unglinga og ungmenna úr Húnaþingi sýndu að þar eru knapar framtíðarinnar í hestamennsku á Íslandi á ferð. Þar var prúðmennska og falleg reiðmennska í fyrirrúmi.

Helga Una Björnsdóttir sýndi frábæra frammistöðu í flokki ungmenna og sigraði sinn flokk á Karitas frá Kommu með einkunnina 8,57.  Á mótinu hlaut Helga Una einnig reiðmenntunarverðlaun Félags tamningamanna fyrir glæsilegan árangur.  Helga Una er afar efnilegur knapi sem á bjarta framtíð fyrir sér.

Helga Una og Hljómur frá Höfðabakka

Annar efnilegur knapi, Elín Hulda Harðardóttir, keppti í A úrslitum í flokki unglinga á hryssunni Móheiði frá Helguhvammi II og lenti hún í fjórða sæti með einkunnina 8,33.

Elín Hulda og Móheiður

Fríða Marý Halldórsdóttir sýndi frábæra takta á Sóma frá Böðvarshólum í unglingatöltinu og eftir úrslit voru þau hnífjöfn hún og Konráð Axel Gylfason á Mósarti frá Leysingjastöðum II. Það var því riðinn bráðabani og lenti Fríða Marý í öðru sæti eftir bráðabanann.

Knöpum í fullorðinsflokki gekk einnig vel á Fjórðungsmóti.

Í B flokki gæðinga náðu þeir félagar Tryggvi Björnsson og Akkur frá Brautarholti fjórða sætinu með einkunnina 8,69. Gáski frá Sveinsstöðum og Ólafur Magnússon sýndu einnig góða takta og lentu í fimmta sæti með einkunnina 8,61 í B flokki gæðinga og Sindri frá Leysingjastöðum II og Ísólfur Líndal Þórisson vermdu áttunda sætið með 8,34 í einkunn í sama flokki.

Tryggvi Björnsson hafði í nógu að snúast á Fjórðungsmóti og sýndi enn og sannaði að þar er hörku reiðmaður á ferð.  Tryggvi sýndi fjölda afburða hrossa, þ.á.m. glæsigripinn Grástein frá Brekku sem hlaut hæstu einkunn í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri á Fjórðungsmóti með einkunnina 8,54.


Tryggvi og Grásteinn

Í þriðja sæti í flokki 7 vetra stóðhesta og eldri var einnig Húnvetningur á ferð, Grettir frá Grafarkoti og var það Herdís Einarsdóttir sem sýndi Gretti.

Í flokki 5 vetra stóðhesta stóð efstur afburðagæðingurinn Kiljan frá Steinnesi með 8,59 í einkunn. Var hann ákaft hylltur af áhorfendum úr brekkunni.  Steinnesbóndinn, Magnús Jósefsson gerði það einnig gott í 4 vetra flokki stóðhesta og gæðingurinn hans Dofri frá Steinnesi lenti í öðru sæti í þeim flokki.

      
Kiljan frá Steinnesi                                                           Dofri frá Steinnesi


Steinnesbúið bætti enn um betur og var kosið besta ræktunarbú Fjórðungsmóts eftir sýningu átta ræktunarbúa á Kaldármelum.
  Var það mál manna að þar færi hver gæðingurinn á fætur öðrum frá fjölskyldunni í Steinnesi.  Sex gæðingar frá Steinnesi voru í sýningunni og hyllti brekkan ákaft hross og knapa eftir glæsilega sýningu.


Steinnes ræktunarbú

Ræktunarbúið Höfðabakki í Húnþingi vestra sem einnig tók þátt í ræktunarbússýningunni sýndi einnig glæsihross sín. Þar eru afar eftirtektarverð hross á ferð og brekkan lét vel í sér heyra þegar Höfðabakkahrossin riðu um völlinn.  Það verður spennandi að fylgjast með hrossunum frá Höfðabakka og Steinnesi á næstunni.

Höfðabakki ræktunarbú

Fjöldi annarra knapa en hér eru upptalin sýndu glæsihross á Fjórðungsmótinu og viðhöfðu fallega reiðmennsku og voru okkur til mikils sóma.

Húnvetningar mega vera afar stoltir af sýnu fólki eftir árangur þeirra á Fjórðungsmótinu á Kaldármelum 2009. 

Ég óska þátttakendum innilega til hamingju með árangurinn og hlakka til að fylgjast áfram með knöpum og hrossum úr Húnaþingi í náinni framtíð.


Flettingar í dag: 410
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 485
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 432472
Samtals gestir: 51114
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 14:49:32

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere