08.09.2010 22:20

Ævintýrið Skrapatungurétt 20 ára




Dagana 18. og 19. september verður mikið fjör í Austur-Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt og er þetta í tuttugasta skipti sem gestum er boðið að taka þátt í ævintýrinu. Verður ýmislegt til gamans gert í tilefni af þeim tímamótum. Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri.

Þátttakendur leigja hesta hjá heimamönnum eða mæta með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 18. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Athugið að aðstaða til að geyma hross nóttina fyrir smölunardag er við sandnámu við Strjúgsstaði  (norðari afleggjari). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. 

Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal er hópurinn um kl 14. Þar hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins. Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu. 

Ferðamannafjallkóngur líkt og í fyrri ár verður Valgarður Hilmarsson. Hann er heimavanur á þessum slóðum og mun sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín.

Veitingar fyrir svanga smala og aðra gesti á Pottinum og Pönnunni Blönduósi. 

Á laugardagskvöldinu leikur besta stóðréttarhljómsveit landsins Paparnir fyrir dansi í Félagsheimilinu Blönduósi. Húsið opnar kl. 23:00. Barinn opinn. 18 ára aldurstakmark. 

 

Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 11. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft finna karlar og konur sinn draumagæðing í smalamennskunni eða í réttunum.

Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað, sungið og skemmt sér að sið Íslendinga.

Allir gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar um þjónustu hjá ferðamannafjallkóngi í síma:  893 2059 (eftir kl. 18 á virkum dögum) eða í netfangi [email protected].   

Húnahornið

Flettingar í dag: 418
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 709
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 409645
Samtals gestir: 49742
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:00:48

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere