Færslur: 2009 September

28.09.2009 22:13

Brotist inn í hesthús á Blönduósi

Brotist var inn í hesthús á Blönduósi um helgina og stolið þaðan hnakki og þremur beislum að verðmæti á fimmtahundrað þúsund. Að sögð eiganda hesthússins, Skarphéðins Einarssonar, eru innbrot í hesthús á Blönduósi að verða árlegur viðburður helgina sem Laufskálaréttin fer fram.  

-Ég varð fyrir því fyrir tveimur árum að farið var inn í húsið hjá mér þessa helgi og járningargræjunum mínum var stolið. Núna tóku þeir hnakk og þrjú beisli. Það voru fjórir hnakkar í húsinu en aðeins var tekinn sá sem einhver verðmæti voru í. Það lítur því út fyrir að þarna séu hestamenn sem eiga leið í gegn að stela frá öðrum hestamönnum. Ég veit til þess að hestamenn á Hvammstanga hafa líka verið að lenda í þessu. Þetta er mikið tjón fyrir okkur og sárt til þess að vita að þarna séu hestamenn á ferð, segir Skarphéðinn.

Skarphéðinn segist hafa tekið eftir þjófnaðinum í gær og þá hafi hann látið aðra hesthúseigendur vita um innbrotið en ekki hafi orðið vart við að stolið hafi verið úr fleiri húsum. -Ég mun ekki láta taka mig svona í bólinu aftur og er ákveðin í því að tæma allt úr húsinu fyrir næstu Laufskálaréttarhelgi.

heimild: www.feykir.is

24.09.2009 22:19

Hrossasmölun og stóðréttir í Víðidal

Krónprisessa stóðréttanna - Víðidalstungurétt



Stóði Víðdælinga verður smalað föstudaginn 2.október næstkomandi. Er búist við fjölmenni. Stóðinu verður réttað í Víðidalstungurétt laugardaginn 3.október nk. Stóðið er rekið til réttar kl.10:00 og réttastörf hefjast.

Kl. 13:00 verður uppboð á völdum hrossum.  M.a. verður boðið upp brúnskjótt hestfolald Unnar frá Blönduósi sem er undan Álfi frá Selfossi og 1.verðlauna hryssunni Uglu frá Kommu. Þarna er tækifærið að ná sér í framtíðarstóðhest. Þeir  hafa ekki verið ófáir stóðhestarnir sem hafa komið frá Kommu á sl. árum

Kl. 14:30 verður dregið í happdrætti. Allir þeir sem kaupa sér kaffi hjá Kvenfélaginu Freyju fá happdrættismiða í kaupbæti.  Fjöldi glæsilegra vinninga þar sem folald er aðalvinningurinn. Ekki dónalegt það.


23.09.2009 21:39

Miðar á Uppskeruhátíð hestamanna rjúka út!

Miðar á Uppskeruhátíð hestamanna rjúka út!

Miðasala á Uppskeruhátíð hestamanna sem haldin verður 7.nóvember næstkomandi gengur glimrandi vel. Hestamenn kunna greinilega vel að meta stórlækkað miðaverð en miðinn fyrir matinn og ballið kostar aðeins 6.900 kr.

Nú þegar, á þriðja degi miðasölunnar, hafa selst um 400 miðar í matinn sem er um helmingur þeirra miða sem í boði eru.

Hátíðin verður með hefðbundnu sniði, þ.e. þriggja rétta glæsilegur málsverður, veitt verða knapaverðlaun sem og verðlaun fyrir ræktunarbú ársins, skemmtidagskrá og dansleikur fram eftir nóttu.

Það er ljóst að hestamenn ætla að fjölmenna á Uppskeruhátíðina sem haldin er af Landssambandi hestamannafélaga og Félagi hrossabænda og gera sér glaðan dag.








14.09.2009 19:59

Akkur frá Brautarholti fallinn

Stóðhesturinn Akkur frá Brautarholti var felldur s.l. laugardag eftir að hafa veikst alvarlega miðvikudaginn 2. september. Þrátt fyrir skjót og góð viðbrögð dýralækna sem gerðu allt til að reyna bjarga hestinum var ekki annað hægt en að fella þennan mikla höfðingja.    
  

   

Þetta kemur fram á http://www.hrima.is/, heimasíðu Tryggva Björnssonar á Blönduósi en hann var eigandi Akks ásamt Ásmundi Ingvasyni.

Tryggvi segir að ágætlega hafi litið út með bata en svo fór að lokum að honum hrakaði mjög síðustu daga og því var ákveðið að fella hestinn. "Það er mjög sorglegt að horfa á eftir þessum mikla höfðingja þar sem hann hefur veitt manni mikla og góða kennslu og árangur frá því að við eignuðumst hann í mars 2007", segir Tryggvi en þeir hafa verið sigursælir á keppnisvellinum i gegnum tíðina.

Akkur hafði hlotið í kynbótadóm 8,23 fyrir sköpulag, 8,80 fyrir hæfileika og 8,57 í aðaleinkun

Sigurvegari í B. flokk hjá Þyt 2007 og 2009
Sigraði B. flokk á Ístölti Austurlands 2008
Þriðja sæti í B. flokk á Landsmóti 2008
Í úrslitum í B. flokk á Metamóti hjá Andvara 2007 og 2008

Fjórða sæti í B. flokk á FM 2009


heimild; huni.is

11.09.2009 11:38

Skrapatungurétt 2009

Stóðsmölun og réttir í A-Húnavatnssýslu



Dagana 19. og 20. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu,
stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt.
 Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri.
 Þátttakendur leigja hesta hjá heimamönnum eða mæta með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 19. september.

 

Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl:10:00
og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal.
 Athugið að aðstaða til að geyma hross nóttina fyrir smölunardag er við sandnámu við Strjúgsstaði  (norðari afleggjari).
 
Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að
 reka laus reiðhross í stóðsmöluninni.
 

Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal er hópurinn um kl 14. Þar hvíla hestar og menn og bíða eftir gangamönnum, fá sér að eta og drekka eftir þörfum.
Veitingar verða seldar á staðnum.

 

Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði.
 (eða 1/2 -1 klst eftir að gangnamenn koma niður)
Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins.
Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu. 
Ferðamannafjallkóngur líkt og í fyrri ár verður Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Hann er heimavanur á þessum slóðum og mun sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni.

 

Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín.


Veitingar fyrir svanga smala og aðra gesti á Pottinum og Pönnunni Blönduósi. 

Á laugardagskvöldinu leikur besta stóðréttarhljómsveit landsins Paparnir fyrir dansi í Félagsheimilinu Blönduósi. Húsið opnar kl. 22:30. Barinn opinn. 18 ára aldurstakmark.

 

          Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl:11. 
       Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima.


Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks
 þar sem er spilað, sungið og skemmt sér að sið Íslendinga.

 
Allir gestir eru hjartanlega velkomnir.
Nánari upplýsingar um þjónustu hjá ferðamannafjallkóngi í
síma:      893 2059 eða í netfangi
[email protected] 

                                                                                                                                                      heimild: huni.is

  • 1
Flettingar í dag: 650
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 791
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 433503
Samtals gestir: 51185
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 12:49:08

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere